Börkur NK er á landleið með 1.500 tonn af makríl úr Smugunni.
Ljósm. Smári Geirsson

Vilhelm Þorsteinsson EA hóf löndun í Neskaupstað í morgun. Hann er með 1.100 tonn af makríl úr Smugunni. Áður hafði Börkur II NK landað rúmlega 1.000 tonnum. Í morgun ræddi heimasíðan við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki NK, en þá voru Barkarmenn að ljúka við að dæla 350 tonna holi. „Það hefur verið þokkalegasta veiði að undanförnu. Í þessu holi voru 350 tonn og svo fengum við 280 tonna hol í gærkvöldi. Fyrsta holið í túrnum var 550 tonn þannig að það hefur ekki verið hægt að kvarta mikið undan veiðinni þessa dagana. Nú er að vísu kominn kaldaskítur en mér skilst að hann eigi að standa stutt. Það hefur verið ótrúlega gott veður nánast alla vertíðina. Við erum núna að leggja af stað í land með 1.500 tonn. Farmurinn er okkar eigin afli að undanskildum 190 tonnum sem við fengum hjá Bjarna Ólafssyni. Það eru um 340 mílur til Neskaupstaðar og ég geri ráð fyrir að við komum til hafnar þar um miðjan dag á morgun,“ segir Hálfdan.