Bergur og Vestmannaey í höfn í Vestmannaeyjum. Ljósm. Arnar Richardsson

Vestmannaeyjaskipin Bergur og Vestmannaey lönduðu góðum afla fyrr í vikunni. Bergur landaði á þriðjudag og var afli hans nánast einungis karfi. Ragnar Waage Pálmason skipstjóri sagði að túrinn hefði gengið vel. „Aflinn var rúmlega 45 tonn og var um að ræða gullkarfa og djúpkarfa til helminga. Þetta fékkst á Sneiðinni og á milli Gjáa. Menn voru mjög sáttir við túrinn. Það var bræla í upphafi hans en síðan lagaðist veðrið og var hið ágætasta,“ segir Ragnar.

Vestmannaey landaði 65 tonnum á miðvikudag. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri segir að aflinn hafi mestmegnis verið ýsa sem fékkst í Skeiðarárdýpinu, á Öræfagrunni og í Breiðamerkurdýpi. Að sögn Birgis var fiskurinn hinn fallegasti.

Bæði Bergur og Vestmannaey héldu til veiða klukkan átta í morgun. Nú er verið að opna hrygningarhólfin á vestursvæði sem hafa verið lokuð í tvær vikur.