Í gær var þokkalegt veður á loðnumiðunum fyrir norðan land og fengu sum skip góðan afla. Í gærkvöldi voru mörg skip á landleið og önnur á leið á miðin að lokinni löndun. Bjarni Ólafsson AK og Hákon EA komu til Neskaupstaðar í nótt og er verið að vinna aflann úr Bjarna í fiskiðjuverinu. Polar Amaroq er að landa 1800 tonnum í fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði og Vilhelm Þorsteinsson EA er væntanlegur þangað með 2300 tonn. Beitir, Börkur og Birtingur eru á miðunum.
Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og verksmiðjustjóri á Seyðisfirði segir að með farminum sem verið er að landa og þeim sem sé væntanlegur til Seyðisfjarðar verði komin þar á land rúmlega 14.000 tonn á vertíðinni. „Þetta er mikill munur frá því í fyrra en þá var engri loðnu landað á Seyðisfirði,“ segir Gunnar. „Annars hefur loðnuvinnslan ekki verið samfelld hjá okkur á Seyðisfirði frá því að hún hófst. Við höfum þurft að stoppa tvisvar í stuttan tíma vegna hráefnisskorts. Annars verður að segja að vertíðin lofi góðu fyrir verksmiðjuna á Seyðisfirði. Helsta áhyggjuefnið hefur verið heldur stopul veiði, fyrst og fremst vegna veðurs. Svo er líka hegðun loðnunnar sérkennileg. Miðað við reynslu fyrri ára ætti hún nú að vera að veiðast út fyrir suðaustur- og suðurströndinni. Annars erum við Seyðfirðingar bjartsýnir. Sól hækkar á lofti og hún fer að skína á okkur á Seyðisfirði 18. febrúar. Það er bjart framundan“, sagði Gunnar að lokum.
Í Neskaupstað hefur loðnuvinnsla í fiskimjölsverksmiðjunni haldist nánast samfelld að undanförnu þökk sé þremur norskum bátum sem komu þangað með afla um helgina. Libas landaði 700 tonnum og Vea 600 tonnum í fiskimjölsverksmiðjuna en Manon landaði 350 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu.