Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað í gærkvöldi og var afli skipsins 94 tonn. Skipið hélt til veiða sl. fimmtudag. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var ánægður með túrinn. „Við byrjuðum að veiða í Berufjarðarálnum en vorum síðan mest utan Fótar og upp á Fætinum. Það aflaðist þokkalega og fiskurinn sem fékkst er mjög góður. Leitað var að ufsa og karfa en lítið fannst. Veður í túrnum var heldur leiðinlegt, það brældi af og til,“ sagði Steinþór.
 
Áhöfnin á Barða var áður á Bjarti og segir Steinþór að hún sé óðum að venjast skipinu. „Þetta er allt að slípast til en það tekur ávallt einhvern tíma,“ sagði Steinþór.
 
Gert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný um hádegisbil á morgun og verður það væntanlega síðasti túr fyrir sjómannaverkfall ef af því verður.