Þórður M. Þórðarson á skrifstofu Síldarvinnslunnar árið 1983. Ljósm.: Vilberg Guðnason.Þórður M. Þórðarson á skrifstofu Síldarvinnslunnar árið 1983. Ljósm. Vilberg Guðnason.Fimmtudaginn 10. desember nk. verður Þórður M. Þórðarson fyrrverandi skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar níræður. Þrátt fyrir að Þórður sé ekki hrifinn af sviðsljósi áforma ættingjar, vinir og félagar að koma saman í Egilsbúð í tilefni tímamótanna og eiga þar góða stund með honum. Verður opið hús í Egilsbúð á afmælisdaginn frá klukkan 16 til 18.
 
Þórður M. Þórðarson fæddist á Krossi á Berufjarðarströnd hinn 10. desember 1925, sonur hjónanna Matthildar Bjarnadóttur og Þórðar Bergsveinssonar útvegsbónda. Þórður var yngstur fimm systkina og ber nafn föður síns sem drukknaði tæpum þremur mánuðum áður en hann kom í heiminn. Matthildur fluttist með börn sín til Neskaupstaðar árið 1930 og festi þar rætur. Þórður, eða Lilli eins og hann var oftast kallaður, var eðlilega kenndur við móður sína og nafnið Lilli Matt festist rækilega við hann.
 
Þegar Matthildur kom með börnin sín til Neskaupstaðar var heimskreppan mikla að ganga í garð með tilheyrandi atvinnuleysi og fátækt. Fjölskyldan var samhent, gerði litlar kröfur og þraukaði kreppuárin en án efa hafa kjörin sem þá buðust mótað lífsskoðanir Þórðar; hann gerðist róttækur verkalýðssinni og skipaði sér ávallt eftir það í fylkingu með þeim sem lengst stóðu til vinstri á vettvangi stjórnmálanna.
 
Lilli hóf snemma að stunda launavinnu eins og strákar gerðu á þeim tíma. Fyrstu störf hans fólust í að stokka upp og beita og síðan lá leiðin til Hornafjarðar á vertíð. Þegar Lilli var liðlega tvítugur hóf hann að starfa hjá Pöntunarfélagi alþýðu í Neskaupstað og þá fólust verkefni hans meðal annars í því að hugsa um bókhald og fjárreiður. Bókahald varð síðan lífsstarf hans. Þegar hann starfaði hjá Pöntunarfélaginu kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Finnsdóttur og eignuðust þau fjóra syni.
 
Lilli Matt réðst til starfa á skrifstofu Samvinnufélags útgerðarmanna árið 1951 og sinnti þar bókhaldi til ársins 1955 en hóf þá störf á skrifstofu togaraútgerðanna í bænum. Á togaraskrifstofunni starfaði hann í tvö ár en þá lá leiðin á ný til Samvinnufélagsins þar sem hann sinnti verkum til 1968. Skrifstofa Samvinnufélagsins sá um bókhald Síldarvinnslunnar á árunum 1957-1960 og þegar Síldarvinnslan festi kaup á fiskvinnslustöð og síldarsöltunarstöð Samvinnufélagsins árið 1965 annaðist skrifstofa þess allt bókhald fyrir þá starfsemi um þriggja ára skeið. Árið 1968 hóf Lilli síðan störf sem skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar og gegndi því um þrjátíu ára skeið. Hann kvaddi starf sitt í árslok 1998. Fyrir utan sitt fasta starf sinnti Lilli bókhaldi fyrir helstu útgerðirnar í bænum um langt skeið. 
 
Lilli Matt hefur alla tíð borið hag bæjarins fyrir brjósti og sinnt margvíslegum félagsstörfum. Hann var til dæmis gjaldkeri Íþróttafélagsins Þróttar í hálfan annan áratug og bæjarfulltrúi var hann á árunum 1978-1990.
 
Síldarvinnslan vill færa Lilla innilegar árnaðaróskir á níræðisafmælinu og þakkar honum ómetanleg störf í þágu félagsins.