Sjómannablaðið Víkingur efnir árlega til ljósmyndakeppni sjómanna. Í ár bárust á annað hundrað myndir í keppnina og þurfti dómnefndin bæði að velja þrjár bestu myndirnar auk þess sem hún valdi fimmtán myndir sem sendar verða til þátttöku í Norðurlandakeppni. Í fyrsta sæti keppninnar í ár hafnaði Þorgeir Baldursson og er myndin sem bar sigur úr bítum tekin um borð í Beiti NK. Myndin fylgir hér með fréttinni og sýnir Kristin Snæbjörnsson stýrimann á Beiti fylgjast með höfuðlínustykkinu.
Þorgeir hefur farið nokkrar veiðiferðir á skipum Síldarvinnslunnar og tekið myndir í þeim en sumar þessara mynda hafa einmitt fylgt fréttum hér á heimasíðunni. Þá hefur Þorgeir einnig tekið frábærar myndir af Síldarvinnsluskipunum sem víða hafa birst.