DSC04080

Landað úr Bjarti NK. Ljósm: Hákon Ernuson

Að undanförnu hefur verið heldur tregt á Austfjarðamiðum hjá togurunum en nú er að rætast úr því. Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær með 60 tonna afla eftir að hafa verið þrjá daga á veiðum hér eystra og var þá Steinþór Hálfdanarson skipstjóri tekinn tali. „Það er að rætast úr veiðinni hér eystra en aflinn í þessari veiðiferð var að uppistöðu til þorskur og karfi. Við vorum að reyna við ufsa eins og nánast allur íslenski togaraflotinn en það reyndist vera lítið af honum. Að undanförnu hefur verið tregt hér eystra og því höfum við veitt á Vestfjarðamiðum síðustu þrjár vikur eða svo. En nú er að rætast úr þessu hérna fyrir austan; það hefur orðið vart við makríl og þá er sá guli fljótur að láta sjá sig. Hann er mættur í makrílveislu,“ sagði Steinþór. „Við erum að njóta síðustu túranna á Bjarti en eins og kunnugt er hefur hann verið seldur til Írans og verður afhentur nýjum eigendum í ágúst. Bjartur er mikið gæðaskip og hefur staðið sig einstaklega vel frá því að Síldarvinnslan hóf að gera hann út árið 1973. Það eiga margir ljúfar og góðar minningar af verunni á Bjarti en nú er hann orðinn gamall blessaður og hans bíða ný verkefni á framandi slóðum,“sagði Steinþór að lokum.

DSC 0577 a

Gullver NS er kominn í frí og unnið er við að gera hann fínan. Ljósm: Ómar Bogason

                Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði sl. laugardag með um 90 tonna afla. Uppistaða aflans var þorskur og karfi. Nú er áhöfn Gullvers komin í sumarfrí en í dag er síðasti vinnsludagurinn í fiskvinnslustöð Gullbergs fyrir sumarlokun. Byrjað er að sinna ýmissi vinnu um borð í Gullver og er þar helst verið að skrapa, mála og gera fínt.