Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gær.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 1200 tonn af íslenskri sumargotssíld. Síldin er góð og fer öll til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Aflinn fékkst í tveimur köstum innan við Hrútey á Breiðafirði við Danskinn. Í fyrra kastinu fengust tæplega 100 tonn en í seinna kastinu 1100 tonn. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Beiti segir að vertíðin til þessa hafi verið heldur óskemmtileg og hafi hún einkennst af þrálátum brælum og lítilli síldargegnd á Breiðafjarðarmiðum. „Menn eru farnir að velta fyrir sér hvar síldin heldur sig“, segir
Hjörvar,“og það er athyglisvert að engar fréttir af síld berast  frá bátum sem eru að veiðum úti fyrir Vesturlandi. Þó ber að hafa í huga að flest virðist vera seinna á ferðinni í ár en í fyrra og ef til vill mun síldin ganga á vetursetustöðvarnar í Breiðafirði 2-3 vikum seinna en gerðist á síðasta ári. Í fyrra var hörkuveiði hafin um mánaðamótin október-nóvember og þá var reyndar líka miklu betra veður en nú hefur verið. Menn eru alls ekkert farnir að örvænta en ef síldin fer ekki að ganga á vetursetustöðvarnar í ríkum mæli þá þarf að skipuleggja leit. Hugsanlegt er að þessi síld sé að skipta um vetrarheimkynni eins og hún hefur áður gert en nú hefur hún haldið sig á Breiðafirði yfir vetrartímann síðastliðin 7 ár. Menn vita af síld af þessum stofni sem heldur sig í Breiðamerkurdýpi  en mælst hefur verið til að hún verði látin í friði um sinn. Hugsanlega er eitthvað að gerast núna þessa stundina því 4 bátar eru búnir að kasta á Kolgrafarfirði og það er nýtt á þessari vertíð að svo margir bátar séu að veiða samtímis.“

Þegar verið var að leggja lokahönd á þessa frétt bárust þau tíðindi að Börkur NK væri að fá góðan afla á Breiðafirði og myndi sennilega leggja af stað austur á bóginn síðdegis eða í kvöld. Vonandi er þetta vísbending um að úr sé að rætast á síldarmiðunum vestra.