Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason.Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason.Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar sl. nótt með 85 tonn af þorski eftir þrjá og hálfan sólarhring að veiðum. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra um veiðiferðina og var fyrst spurt hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við vorum mest á Digranesflakinu í skítabrælu. Það kom einn sæmilegur sólarhringur og þá fengum við helming aflans. Það hefur svo sannarlega verið þreytandi tíðarfar að undanförnu. Við höfum fengið glugga í hálfan eða einn sólarhring en svo byrja lætin á ný. Þetta er svo sannkölluð brælutíð og skipin eru á stanslausum flótta undan veðri. Nú spáir hann hins vegar eitthvað skár og það verður mikill léttir ef það rætist,“ segir Þórhallur.
 
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi til veiða á ný klukkan átta á sunnudagskvöld og þá ætti áhöfnin að vera búin að jafna sig eftir vel heppnað þorrablót.