Ísfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 85 tonn, mestmegnis þorskur. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við vorum að veiðum á Gerpisflakinu og í Reyðarfjarðardýpi. Við sáum loðnupeðrur út um allt og fiskurinn var stútfullur af loðnu. Þarna var svo sannarlega líflegt. Við ætluðum að fara út í gær en því var frestað vegna leiðindabrælu og erum fyrst að fara út núna. Það er búin að vera ótrúlega leiðinleg tíð að undanförnu og það var kaldafýla allan síðasta túr. Menn eru orðnir þreyttir á veðurlaginu, endalausum veltingi og látum. Það hefur oftast verið haugasjór að undanförnu. Vonandi fer þetta að lagast og okkur finnst vera kominn tími til,“ segir Þórhallur.