Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærkvöldi og verið er að landa úr skipinu í dag. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarason skipstjóra og hafði hann strax orð á því að heilir þrír góðviðrisdagar hefðu verið í túrnum og væru það stórtíðindi. „Það er óskaplegur munur að fá daga eins og þessa. Menn eru orðnir býsna þreyttir á lægðaganginum sem hefur verið nánast samfelldur síðan í desember. Það hefur varla verið upprof. Við þurftum að fara inn til Neskaupstaðar 15. febrúar vegna þess að það slitnaði hjá okkur togvír. Þá lönduðum við 40 tonnum. Nú er aflinn 93 tonn og er hann að mestu þorskur og karfi. Við byrjuðum í Lónsdýpinu og á Papagrunni en vorum síðan á Breiðdalsgrunni og Fætinum. Það verður farið út í kvöld á ný og verður það síðasti túr fyrir togararall. Gullver mun taka þátt í rallinu og á það að hefjast 1. mars,“ segir Steinþór.