Landað úr Bergey VE og Vestmannaey VE í Eyjum. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Bergey VE og Vestmannaey VE, lönduðu báðir fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Gullver NS landaði einnig fullfermi á Seyðisfirði. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana í umræddum veiðiferðum.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að uppistaða aflans hjá þeim væri ýsa og karfi. „Við byrjuðum túrinn á Pétursey en þar var frekar tregt. Þá héldum við austur á Ingólfshöfða og á Öræfagrunn og fylltum skipið þar. Þarna austur frá var ágætis kropp og fiskurinn sem fékkst var fínn,“ segir Jón.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, var ágætlega hress þegar við hann var rætt. „Við erum með fullt skip og aflinn er blandaður, mest ufsi, ýsa og þorskur. Við hófum túrinn í Háfadýpinu en síðan var dregið austur á Mýragrunn. Þá var snúið við og tekin tvö hol á Ingólfshöfða og loks eitt á Víkinni. Á flestum stöðum var fiskur en hins vegar gekk erfiðlega að fá þær tegundir sem okkur var einkum ætlað að veiða,“ segir Egill Guðni.

Bæði Bergey og Vestmannaey héldu til veiða á ný strax að löndun lokinni.

Gullver hélt til veiða 16. júní og kom til Seyðisfjarðar í gær með 112 tonn eða fullfermi. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að aflinn hafi verið blandaður. „Við nýttum fyrsta sólarhringinn í að leita að grálúðu en það gekk erfiðlega. Lúðunnar var leitað frá Seyðisfjarðardýpi og suður undir Fót. Síðan hófum við veiðar á Papagrunni og í Hvalbakshalli og fengum þar nánast allan aflann. Það fiskaðist þokkalega þar og fiskurinn er að mestu góður,“ segir Þórhallur.

Gullver hélt á ný til veiða í gærkvöldi.