Kusa strýkur loðnu sem er í þurrkun. Ljósm. Hákon ErnusonKusa strýkur loðnu sem er í þurrkun. Ljósm. Hákon ErnusonÍ Neskaupstað hafa japönsku eftirlitsmennirnir Kusa og Shimozawa dvalið að undanförnu og fylgst með framleiðslu á Japansloðnu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þeir hafa komið sér upp dálítilli aðstöðu á afviknum stað í verinu þar sem þeir þurrka loðnu til eigin neyslu. Þeir þræða bústna, hrognafulla loðnu upp á vír sem hengdur er upp og þar hangir hún til þurrkunar í ákveðinn tíma. Þeir félagar skoða loðnuna með reglulegu millibili og bíða spenntir eftir að hún verði tilbúin. Kusa strýkur hverri loðnu og talar um hvað þær séu girnilegar svona útbólgnar af hrognum.
 
Þegar þurrkunin er fullnægjandi er loðnan tekin og steikt eða bökuð í ofni að japönskum sið og þykir hið mesta sælgæti. „Svona loðna er frábær. Við borðum þetta eins og snakk á kvöldin að loknum vinnudegi og drekkum bjór með,“ segir Kusa. „Þetta er betra en annað snakk sem við þekkjum, algert hnossgæti,“ segja þeir félagar og glotta þegar þeir sjá svipinn á íslensku viðmælendunum.