Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas Kárason Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas KárasonBeitir og Börkur héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni eftir páskahátíðina. Fyrstu dagana leituðu skipin en ekkert var að sjá. Þá var haldið til hafnar á Þvereyri á Suðurey og þar var legið í tæpa viku. Í morgun var hins vegar látið úr höfn enda höfðu borist upplýsingar um að kolmunninn sé að nálgast færeysku lögsöguna en í fyrra fékkst fyrsti aflinn innan hennar 14. apríl. 
 
Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Beiti í morgun en skipið var þá statt suður af Færeyjum. „Fiskurinn er að fara að ganga inn í lögsöguna. Færeysku skipin voru að trolla við línuna í gær og þetta er alveg að koma,“ sagði Hálfdan. „Veiðin hófst um þetta leyti í fyrra þannig að vart er hægt að segja að tímasetningin komi á óvart. Við erum búnir að liggja í höfn á Þvereyri  rétt eins og við gerðum á sama tíma í fyrra. Þar lágu Börkur og Vilhelm Þorsteinsson auk okkar og Hákon kom þar einnig til hafnar. Íslenskir bátar lágu víðar og biðu kolmunnans. Þannig voru nokkrir í Kollafirði og einn í Fuglafirði. Ég held að einir átta íslenskir bátar hafi legið síðustu dagana í Færeyjum og einir fjórir eða fimm til viðbótar eru nýlega lagðir af stað til veiða. Það er því ljóst að tölunni tólf verður náð strax, en tólf íslenskir bátar mega veiða kolmunnann samtímis innan lögsögunnar. Það hefur verið gott að liggja á Þvereyri. Þar er góð höfn og þar er gott fólk sem vill allt fyrir okkur gera. Þarna talar annar hver maður íslensku. Við erum búnir að fara í marga góða göngutúra um nágrennið þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið neitt sérstakt. Þá hafa ölkrár á staðnum notið góðs af veru okkar hérna. En nú fara veiðar vonandi að hefjast, kvótinn er ríkulegur og næg verkefni framundan,“ sagði Hálfdan að lokum.