Það er mikið um togaralandanir á Seyðisfirði þessa dagana en afli skipanna fer ýmist til vinnslu hjá frystihúsi Gullbergs ehf. eða í gáma sem fluttir eru út með ferjunni Norrænu. Síðustu daga hefur Gullver NS landað tvisvar eftir stuttar veiðiferðir. Hann landaði um 50 tonnum 18. nóvember og um 40 tonnum 21. nóvember. Barði NK kom til löndunar 22. nóvember með liðlega 108 tonn en veiðiferð hans tók fjóra daga höfn í höfn. Í dag kom Bergey VE til löndunar og Vestmannaey VE mun landa næstkomandi mánudag. Síðan er ráðgert að Gullver landi enn á ný á þriðjudaginn kemur.
Elstu menn muna ekki jafn mikla togaratraffík á Seyðisfirði og er um þessar mundir og það er svo sannarlega líflegt í höfninni þar.