Skítabræla.  Ljósm. Þórður Þórðarson

Undanfarna daga hefur veðurfarið á landinu verið hryssingslegt og komið í veg fyrir að loðnuveiðar geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti.  Nokkur skip fengu þó einhvern afla í gær, þar á meðal Börkur NK sem krækti í ein 1.200 tonn.  Einhver skip köstuðu í morgun á Faxaflóa og standa vonir til að afli fari á ný að berast að landi í einhverju mæli.

Í fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar er lítið hráefni eftir til vinnslu og hætt er við að þær geti stöðvast ef veðrið fer ekki að skána.  Þá er að sjálfsögðu mikilvægt að veiðin sé jöfn og góð svo hrognavinnsla geti gengið eðlilega fyrir sig.  Á vegum Síldarvinnslunnar hófst hrognavinnsla í Helguvík um s.l. helgi en um þessar mundir er verið að gera klárt fyrir þá vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað.