Bikarinn fór á loft á Norðfjarðarvelli í dag. Ljósm. Eysteinn Þór Kristinsson.Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar vann 2. deild karla með yfirburðum og tók á móti sigurlaununum í dag að afloknum 2-0 sigri á Sindra á Norðfjarðarvelli. Fjarðabyggð beið einungis lægri hlut í einum leik í deildinni í sumar og hefur níu stiga forskot á næsta lið þegar einni umferð er ólokið. Stigin sem liðið hefur fengið eru 50 talsins og markahlutfallið glæsilegt og undirstrikar þá yfirburði sem liðið hefur haft.

Það ríkti svo sannarlega gleði á Norðfjarðarvelli í dag þegar bikarnum var lyft og var fjölmenni á vellinum sem samfagnaði liðsmönnum. Er þetta annað árið í röð sem KFF-liðið veitir sigurlaunum móttöku en liðið bar sigur úr býtum í 3. deildinni í fyrra.

Síldarvinnslan er stoltur stuðningsaðili KFF og sendir félaginu heillaóskir í tilefni af frábærum árangri á knattspyrnuvellinum. Áfram Fjarðabyggð !