Ágætu starfsmenn. Það er aðdáunarvert hvernig allir hafa snúið bökum saman í slagnum við þann vágest sem Covid 19 er. Þið hafið farið að þeim reglum sem settar hafa verið og sætt ykkur við þær takmarkanir sem þær fela í sér. Þið hafið einnig sýnt ábyrgð í ykkar frímtíma. Nú erum við að ljúka fjögurra mánaða makríl/síldarvertíð þar sem allt hefur gengið vel, bæði veiðar og vinnsla. Við erum að upplífa aukna smithættu allvíða á landinu, þó Austurland virðist vera þar undanskilið ennþá. Síldarvinnslan vill biðla til starfsmanna um að halda áfram að fara eftir þeim tilmælum sem gefin hafa verið af land- og sóttvarnalækni hvað sóttvarnir varðar.
Starfsmenn eru hvattir til að takmarka ferðir sínar eins og frekast er unnt á þau svæði þar sem sýkingar hefur orðið vart. Ef slíkar ferðir eru farnar er mikilvægt að sýna ítrustu varkárni hvað varðar sýkingarhættu.
Mikilvægt er að virða fjarlægðarmörk og fara að einu og öllu eftir ráðleggingum um handþvott og sótthreinsun ásamt því að nota viðeigandi hlífðarbúnað eins og andlitsgrímu og hanska þar sem það á við.
Verði starfsmaður var við einkenni eins og kvef, hósta, hita, beinverki, hálssærindi, höfuðverk eða óeðliega þreytu er hann beðinn um að halda sig heima og hafa tafarlaust samband við heilsugæslu.
Hér á eftir fylgja reglur sem skulu gilda innan fyrirtækisins vegna Covid 19:
1. Starfsmenn leggi áherslu á handþvott og notkun sótthreinsivökva.
2. Tryggt verði að helstu snertifletir starfsstöðva verði sótthreinsaðir reglulega t.d. hurðarhúnar, borð o.s.frv.
3. Óviðkomandi er bannaður aðgangur að starfsstöðvum. Gestir sem þurfa nauðsynlega að komast inn á starfsstöð hafi samband við ábyrgðaraðila og fái heimsóknarheimild.
4. Skip félagsins skulu vera lokuð fyrir alla utanaðkomandi og þeir áhafnarmeðlimir sem eru í fríi skulu ekki koma til skips að nauðsynjalausu.
5. Starfsmenn skulu ekki fara á milli starfsstöðva fyrirtækisins að nauðsynjalausu og skulu þeir afla sér heimilda ábyrgðaraðila ef það er nauðsynlegt.
6. Starfsmenn eru hvattir til að fara ekki í ferðalög nema brýna nauðsyn beri til og á það bæði við um ferðalög innanlands og til útlanda. Starfsmenn eru beðnir um að tilkynna yfirmanni um ferðalög út fyrir Austurland.
7. Áhersla skal lögð á að nota fjarfundabúnað eða síma til fundarhalda í stað snertifunda.
Þessum slag við Covid 19 lýkur ekki fyrr en fullnægjandi bóluefni koma fram. Verum á varðbergi, sýnum samtöðu og hugum hvert að öðru. Það gerum við best með sóttvörnum og árvekni hvers og eins.
Starfsmenn eru hvattir til að afla sér upplýsinga og kynna sér leiðbeiningar á covid.is
Gunnþór B. Ingvason – Framkvæmdastjóri