Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um árið 1965 en þá urðu grundvallarbreytingar á starfsemi Síldarvinnslunnar.
Á fyrstu starfsárum Síldarvinnslunnar var öll áhersla lögð á rekstur síldarverksmiðjunnar sem tók til starfa árið 1958 en á því varð grundvallarbreyting á árinu 1965. Segja má að á því ári hafi orðið skýr þáttaskil í starfsemi fyrirtækisins en þá hóf Síldarvinnslan útgerð eigin skipa auk þess að festa kaup á framleiðslutækjum Samvinnufélags útgerðarmanna og hefja rekstur þeirra. Segja má að á þessu ári hafi Síldarvinnslan breyst og orðið að fjölþættu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki.
Stjórn Síldarvinnslunnar ákvað í árslok 1963 að hefja útgerð og var þá samþykkt að festa kaup á 264 tonna fiskiskipi sem smíðað var í Austur Þýskalandi. Ráðgert var að afhenda skipið eigandanum í nóvember 1964. Um leið og ákveðið var að festa kaup á skipinu var samþykkti stjórnin að Síldarvinnslan tæki Gullfaxa NK á leigu frá áramótum til vors í þeim tilgangi að aðstoða við öflun hráefnis fyrir fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna. Hið nýja skip Síldarvinnslunnar fékk nafnið Barði og þegar það var í reynslusiglingu á Elbufljóti 20. desember 1964 henti það óhapp að flutningaskip sigldi á það. Skemmdist Barði mikið við ásiglinguna en engin alvarleg meiðsl urðu á mönnum. Verulegan tíma tók að lagfæra skemmdirnar og því kom Barði ekki til heimahafnar í Neskaupstað í fyrsta sinn fyrr en 5. mars 1965. Í októbermánuði 1964 hafði stjórn Síldarvinnslunnar ákveðið að láta smíða annað skip fyrir fyrirtækið. Um var að ræða systurskip Barða sem hlaut nafnið Bjartur. Bjartur kom nýr til Neskaupstaðar 14. maí 1965. Bæði skipin voru sérstaklega smíðuð með síldveiðar í huga enda síldarævintýri í hámarki á Austfjörðum.
Í marsmánuði 1965 var formlega gengið frá kaupum Síldarvinnslunnar á framleiðslustækjum Samvinnufélags útgerðarmanna. Um var að ræða hraðfrystihús, fiskimjölsverksmiðju, aðstöðu til söltunar á fiski, fiskhjalla og ýmsar aðrar eignir ásamt helmingshlut í síldarsöltunarstöðinni Ás. Samvinnufélag útgerðarmanna átti meirihluta í Síldarvinnslunni en þegar þarna var komið sögu gekk starfsemi félagsins erfiðlega og því varð niðurstaðan sú að Síldarvinnslan festi kaup á framleiðslustækjum þess og hæfi rekstur þeirra. Með kaupunum hóf Síldarvinnslan að sinna bolfiskvinnslu af ýmsu tagi og einnig síldarsöltun. Eftir kaupin var söltunarstöðin nefnd síldarsöltunarstöð SVN.
Árið 1965 voru einungis fryst 175 tonn af bolfiski í fiskvinnslustöðinni en hins vegar 1.679 tonn af síld. Bolfiskframleiðslan var óvenju lítil en síldarfrysting hafði aldrei verið meiri í Neskaupstað. Á síldarvertíðinni þetta ár voru saltaðar 11.514 tunnur á síldarsöltunarstöð SVN.