Jóhannes Sveinbjörnsson lét af störfum hjá Síldarvinnslunni hinn 31. október sl. en þá varð hann 70 ára. Jóhannes hóf störf hjá fyrirtækinu haustið 1971 þannig að starfstími hans hjá því voru 45 ár. Hann segir að þessi ár hafi verið ótrúlega fljót að líða og margir starfsfélaganna séu eftirminnilegir. Þá hafi breytingarnar á starfsumhverfinu verið hálfbyltingarkenndar. Hér skal Jóhannesi gefið orðið:
Á sjó og í síld
Ég er fæddur hér í Neskaupstað en fjölskyldan bjó reyndar í Sandvík fyrsta æviárið mitt. Eins og aðrir strákar byrjaði ég að vinna snemma. Fjórtán ára að aldri var ég til dæmis með Guðmundi Bjarnasyni á Ver á handfæraveiðum við Langanes. Ég starfaði í frystihúsi og mikið á síldarplönunum hérna í bænum. Ég var á Sæsilfri, Mána og Ás og árið 1965 tók ég þátt í að koma síldarplani Naustavers á laggirnar og þar varð ég verkstjóri 18 ára gamall. Naustaver starfaði í fjögur ár. Á þessum árum fór ég tvær vertíðir til Hornafjarðar á vélbátnum Þorsteini. Þar vorum við á handfærum og það var eftirminnilegur tími. Um borð í Þorsteini voru bæði Siggi Jóns og Siggi Nobb og það var sko aldrei leiðinlegt að vera samskipa þessum mönnum.
Árið 1968 fór ég einn túr á Árna Magnússyni frá Sandgerði á miðin við Svalbarða. Þar var veidd síld og söltuð um borð en söltunarstöðin Sæsilfur tók síðan á móti síldinni. Eftir þennan túr var ég ráðinn til Sæsilfurs og var verkstjóri við verkun síldarinnar. Þegar síldarævintýrinu lauk endanlega réðst ég sem háseti á Svein Sveinbjörnsson NK sem ýmist var á útilegu á netum eða á síld í Norðursjó.
Ráðinn til Síldarvinnslunnar
Haustið 1971 var ég ráðinn til Síldarvinnslunnar. Í upphafi vann ég með Guðjóni heitnum Marteinssyni í saltfiskinum og sá um landanir úr skuttogaranum Barða, fyrsta eiginlega skuttogara landsmanna. Fyrir utan þetta hóf ég fljótlega að sinna ýmsum störfum sem tengdust skipum fyrirtækisins.
Árið 1973 bættist skuttogarinn Bjartur í flota Síldarvinnslunnar og þá voru togararnir orðnir tveir. Þá var ég ráðinn til að sjá um landanir úr togurunum og öðrum bátum sem lögðu upp afla hjá fyrirtækinu. Í mínum verkahring var einnig að sjá um allar útskipanir á freðfiski.
Framan af voru engir fastráðnir í landanirnar og ég þurfti því eilíflega að leita að mönnum til að sinna þeim. Fljótlega varð mönnum ljóst að nauðsynlegt væri að ráða fasta starfsmenn og þá varð til hið svonefnda löndunargengi sem margir muna eflaust eftir.
Löndun á fiski úr togurunum var mannaflsfrekt verkefni framan af. Það þurfti 10-12 manns í hverja löndun auk kranamanna. Útskipun á freðfiski krafðist síðan enn fleiri manna; það þurfti marga til að ná fiskinum úr frystiklefunum og stafla honum á bíla sem síðan óku með hann út á höfn. Þar var fiskurinn síðan hífður um borð í flutningaskipið og honum staflað í lestar.
Þegar löndunargengið var ekki að landa fiski eða skipa út fiski fékkst það við ýmis störf sem tengdust skipum fyrirtækisins. Einkum var unnið við veiðarfæri.
Það voru margir sem unnu mjög lengi í löndunargenginu og segja má að það hafi verið samheldinn og góður hópur. Enginn vann þó lengur í genginu en Víglundur Gunnarsson kranamaður. Hann vann ekki bara á krananum heldur sá til þess að hann væri í fullkomnu lagi og það var lengi ærið verk því það verður að segjast eins og er að kranarnir sem áður voru notaðir voru engin nýtískutæki.
Tækniþróunin hefur haft sín áhrif á störf við fisklandanir eins og svo mörg önnur. Allur búnaður hefur breyst og batnað, vinnan er léttari en áður og starfsmönnum hefur fækkað. Í dag eru 5-6 menn að landa úr togara og þar af einungis 1-2 niðri í lest skipsins en í lestinni voru gjarnan 8 á fyrri tíð. Kör hafa leyst kassa af hólmi og afköst við löndunina hafa margfaldast.
Ráðinn reddari
Það var líklega árið 1999 sem ég var síðan ráðinn starfsmaður útgerðar Síldarvinnslunnar. Halldór Hinriksson hafði áður verið í því starfi en var að hætta fyrir aldurs sakir. Þetta starf er ótrúlega fjölbreytt og í því fólst allskonar reddingar, enda menn sem gegna slíkum störfum gjarnan kenndir við reddingarnar. Ég sinnti öllu sem tilheyrði útgerðinni að undanskildum vélbúnaði. Það þurfti að sjá til þess að allt væri klárt þegar skip létu úr höfn, allar skoðanir á skipunum væru í lagi og undirbúa komur skipanna úr veiðiferðum. Þessu starfi sinnti ég í 17 ár og hef notið mín vel í því. Tíminn hefur í reynd verið ótrúlega fljótur að líða – hann hefur þotið áfram.
Lengst af var ég einn í að starfa fyrir útgerðina í landi, en síðustu tvö árin hefur Sæmundur Sigurjónsson verið með mér. Vissulega er skemmtilegra að eiga starfsfélaga en að vera einn að bauka.
Starf reddarans felur í sér að það þarf að hafa samkipti við marga. Ég þurfti að vera í tengslum við umbúðafyrirtæki vegna frystiskipanna, skoðunarstofnanir vegna skoðana á skipunum, yfirmenn skipanna og að sjálfsögðu stjórnendur fyrirtækisins. Allt þetta samstarf hefur verið afar farsælt og ég man í reynd aldrei eftir því að komið hafi til einhverra árekstra. Ég hef verið ánægður í mínu starfi og á þessari stundu vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með hjá Síldarvinnslunni.