Bjarni Ólafsson AK að fara að dæla afla frá Berki NK í Smugunni.
Ljósm. Björn Steinbek

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar um hádegi í dag með 970 tonn af makrílmiðunum í Síldarsmugunni. Heimasíðan sló á þráðinn til Runólfs Runólfssonar skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „ Hún gekk þokkalega. Við vorum tvo sólarhringa að fá þennan afla í skipið. Við tókum fimm hol og síðan fengum við afla úr fimm holum hjá Berki. Þetta voru semsagt tíu lítil og krúttleg hol. Aflinn er töluvert síldarblandaður. Það var hörkuveiði á meðan við vorum síðast að landa en þegar við komum út var veislan búin og veiðin dróst verulega saman. Við vorum að veiðum að þessu sinni 630 mílur frá landi þannig að það er ofboðslega langt að fara. Mér skilst að í gær og í nótt hafi afli skipanna á miðunum verið misjafn en yfirleitt heldur lítill og hjá sumum nánast ekki neinn. Ég var að skoða veðurspá og hann spáir ekki vel. Það bendir allt til þess að næsta vika verði bræluvika í Smugunni,“ segir Runólfur.