Vestmannaey VE og Bergey VE komu til löndunar í Vestmannaeyjum í gær. Bæði skipin voru með fullfermi og afli þeirra blandaður en hvort skip var m.a. með um 20 tonn af lýsu. Bergur-Huginn, dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar, gerir út Eyjarnar og hefur lengi verið lögð nokkur áhersla á lýsuveiðar hjá skipunum. Lýsan er utan kvóta og fyrir hana fæst viðsættanlegt verð en hún er seld til Frakklands. Markaðurinn fyrir lýsuna er hins vegar ekki stór og því skiptir máli að veiðin sé ekki alltof mikil. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey um lýsuveiðar. Birgir segir að lýsuveiðar séu heldur meiri nú en síðustu 2-3 árin en hins vegar hafi enn meiri áhersla verið lögð á lýsuveiðar áður fyrr þegar kvóti skipanna var minni. „Það var ágætt lýsuskot nú í aprílmánuði og veiðin hefur haldið áfram það sem af er maí. Yfirleitt hverfur lýsan af miðunum í lok maí og sést nánast ekkert á ný fyrr en á haustin. Lýsan er fínasti matfiskur. Yfirleitt er fiskurinn sem við fáum á bilinu 500-700 grömm en stærsti fiskurinn er 1-1,2 kg.,“ segir Birgir.