Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÞessa dagana er mikill fjöldi fiskiskipa á Austfjarðamiðum. Þegar staðan var könnuð í gær voru þar ísfisktogararnir Ljósafell, Barði, Gullver, Drangavík, Brynjólfur, Suðurey og Múlaberg ásamt frystitogurunum Þerney, Höfrungi III, Kleifabergi, Sigurbjörgu og Hrafni Sveinbjarnarsyni. Auk þessara togara var tugur línubáta á miðunum. Ástæðan fyrir þessum mikla togarafjölda eystra er sú að allir eru þeir að keppast við að veiða annað en þorsk og meiri líkur eru taldar á að fá ufsa, karfa og grálúðu á Austfjarðamiðum en annars staðar.
 
Barði NK kom til Neskaupstaðar í gær og var afli skipsins 100 tonn, þar af 70 tonn þorskur. Jóhann Örn Jóhannsson skipstjóri sagði að mikið hefði verið haft fyrir að veiða annað en þorsk í túrnum. Byrjað var vestur á Öræfagrunni, síðan haldið á Stokksnesgrunn og þá reynt fyrir sér í Lónsdýpi, Berufjarðarál og Utanfótar. Loks var haldið norður í Seyðisfjarðardýpi og endað á Digranesflakinu. Allan tímann var reynt að veiða annað en þorsk en árangurinn var takmarkaður. Á miðunum norður frá var nóg af þorski að hafa og þar fékk Barði drjúgan hluta af sínum afla. Aðspurður sagði Jóhann að mönnum væri ekkert alltof vel við að hafa allan þennan togaraflota eystra, menn vildu helst hafa frið á sínum hefðbundnu miðum en því væri ekki alltaf að heilsa.
 
Barði heldur á ný til veiða í kvöld.