Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason

Gullver NS landaði 105 tonnum á Seyðisfirði í gær. Aflinn var að mestu þorskur, karfi og ufsi. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að það hafi verið ágætis veiði í túrnum. „Við veiddum ufsa í Berufjarðarálnum og það gekk vel í eina tvo sólarhringa en síðan datt veiðin algjörlega niður. Þorskinn fengum við hins vegar á Örvæntingarhorni og það var nóg af honum. Við héldum til veiða á ný í gærkvöldi og það er heldur rólegt hjá okkur núna en vonandi breytist það fljótlega,“ sagði Þóhallur.

Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu bæði í Eyjum sl. þriðjudag og var aflinn blandaður. Að löndun lokinni var gert hlé á veiðum og héldu þau ekki á ný á miðin fyrr en í gær.