Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍ gær lönduðu ísfisktogararnir Gullver NS og Vestmannaey VE á Seyðisfirði. Gullver landaði rúmlega 100 tonnum í sumarblíðunni og Vestmannaey 75 tonnum. Afli Gullvers var mest þorskur og karfi en hjá Vestmannaey var nánast allur aflinn þorskur. Jónas P. Jónsson skipstjóri á Gullver lætur vel af aflabrögðum eystra. „Við fórum út á miðvikudag og það tók okkur dálítinn tíma að finna þorskinn en þegar hann fannst á Gerpisflakinu gekk vel að veiða. Í reyndinni fengum við megnið af þorskinum á einum sólarhring, síðan fengum við um 18 tonn af karfa og lítilsháttar af ufsa og ýsu. Verðin hafa verið að þokast upp að undanförnu og það skiptir miklu máli en fyrr á árinu voru þau skelfilega léleg eins og kunnugt er. Við munum halda til veiða á ný eftir hádegi í dag og gerum ráð fyrir að halda á sömu mið og síðast,“ segir Jónas.
 
Fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði fékk afla úr báðum skipunum og segir Ómar Bogason rekstrarstjóri stöðvarinnar að nóg sé að gera. Ómar segir að nú sé minna fryst en oft áður og meira sent út ferskt. „Frá okkur fara hnakkar til Frakklands og nú er farið að flytja út fersk flök til Þýskalands og það gengur vel. Þessi fiskur fer út með Norrænu, skipum Eimskips og Mykinesi frá Þorlákshöfn,“ segir Ómar.