Vestmannaey VE landaði fullfermi í blíðunni í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári Geirsson

Gullver landaði 114 tonnum á Seyðisfirði á annan í páskum og var uppistaða aflans þorskur og karfi. Skipstjóri í veiðiferðinni var Steinþór Hálfdanarson og segir hann að karfinn hafi fengist í Lónsdýpinu en annar afli við Örvæntingu. Gullver hélt til veiða á ný að lokinni löndun og er nú að toga á Papagrunni.

Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum á síðasta vetrardag og var aflinn að mestu ýsa sem fékkst á Öræfagrunni. Nú er Bergey að reyna við karfa suður af Vestmannaeyjum og gengur þokkalega. Gerir Jón Valgeirsson skipstjóri ráð fyrir að komið verði til löndunar í Eyjum á mánudag.

Loks kom Vestmannaey VE með góðan afla til Neskaupstaðar í gær og hitti tíðindamaður Egil Guðna Guðnason skipstjóra kátan og hressan á hafnarbakkanum að löndun lokinni. „Við vorum að landa fullfermi eða rúmlega það. Þetta voru 237 kör eða 85-90 tonn og aflinn var þorskur og ýsa. Ýsuna fengum við á Öræfagrunni og þorskinn á Breiðdalsgrunni. Þetta var fínasta veiði. Túrinn tók um það bil þrjá og hálfan sólarhring; við veiddum ýsuna á tæpum sólarhring og þorskinn á um það bil sólarhring og síðan vorum við í einn og hálfan sólarhring á siglingu. Það getur enginn kvartað undan svona aflabrögðum. Vertíðin er búin að vera afar góð en auðvitað er ávallt spurningin hvað má veiða hverju sinni. Stundum geta menn ekki sótt í það sem auðveldast er að taka en kvóti og markaðsaðstæður ráða því auðvitað hvað veitt er hverju sinni. Nú munum við halda til Eyja og hefja veiðar þar enda fæðingarorlofi þorskins, hinu svonefnda hrygningarstoppi, lokið á vestursvæðinu. Það verður skipt um áhöfn að hluta í Eyjum og síðan haldið á miðin. Það þýðir ekkert að slá slöku við,“ segir Egill Guðni.