Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í morgun. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍsfisktogarinn Bjartur NK kom að aflokinni veiðiferð til heimahafnar í Neskaupstað í morgun með 92 tonn og er uppistaða aflans þorskur og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri  segir að karfinn hafi fengist á Lónsdýpi, í Berufjarðarál og í Hvalbakshalli en þorskurinn í Hvalbakshalli og austur fyrir Hæl. Hér er um að ræða þriðju veiðiferð Bjarts eftir áramót og hefur fiskast þokkalega að mati Steinþórs í öllum veiðiferðunum.

Frystitogarinn Barði NK kemur til hafnar í kvöld en hann var við veiðar á Vestfjarðamiðum. Afli hans er 347 tonn upp úr sjó og er aflaverðmætið 88 milljónir króna í þessari fyrstu veiðiferð nýbyrjaðs árs. Um 160 tonn af aflanum er karfi, 52 tonn þorskur, 28 tonn ýsa, 47 tonn ufsi og 16 tonn grálúða.