Ísfisktogarinn Bjartur NK landaði 97 tonnum í Neskaupstað í gær. Uppistaða aflans, eða 67 tonn, var þorskur og 20 tonn ufsi. Að sögn Jóhanns Arnar Jóhannssonar skipstjóra aflaðist jafnt og vel í veiðiferðinni. Þorskurinn var tekinn Utanfótar og á Herðablaðinu en ufsinn í Berufjarðarálnum. Bjartur mun halda til veiða á ný um hádegi á föstudag.
Frystitogarinn Barði NK mun koma til löndunar á föstudag með fullfermi af blönduðum afla. Um 70 tonn af aflanum er makríll, um 100 tonn ufsi og síðan lítilsháttar af þorski, karfa og grálúðu. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið vel og nánast allan tímann hafi verið ágætis kropp. Makríllinn var veiddur fyrir vestan land og var unnt að halda uppi fullri vinnslu á meðan á þeim veiðum stóð þrátt fyrir leiðindaveður. Að makrílveiðunum loknum var haldið á Halamið í ufsa og síðan á mið úti fyrir Suðausturlandi.