Landað úr Vestmannaey VE í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Ísfisktogararnir hafa verið að fá ágætan afla austur af landinu. Bergey VE landaði í Neskaupstað í gær og Vestmannaey VE landaði þar fullfermi í dag. Þá kom Gullver NS til Seyðisfjarðar í morgun með fullfermi. Egill Guðni Guðnason, stýrimaður á Vestmannaey, sagði að vel hafi gengið að fiska. „Við fengum þennan afla á Glettinganesgrunni og síðan á Breiðdalsgrunni og út í Hvalbakshalli. Þetta er mest þorskur en einnig dálítið af ýsu. Það kom gott skot í Hvalbakshallinu og þar var mokveiði í tæpan sólarhring. Þetta var hinn þægilegasti túr miðað við veðravítið í síðasta túr,“ segir Egill Guðni.  

Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver hefur svipaða sögu að segja. „Við byrjuðum á Glettinganesflakinu í ýsukroppi en fengum síðan þorsk suður á Litladýpi og á Breiðdalsgrunni. Túrinn tók um þrjá og hálfan sólarhring. Það var góður þorskafli þarna suður frá en þegar við fórum hafði veiðin dottið niður. Það munaði miklu að við fengum gott veður í túrnum, það var einungis smá kaldi eina nóttina en annars fínt veður,“segir Þórhallur. 

Gullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði fyrir hádegi í dag. Á myndinni eru Gullversmenn að ganga frá festum og gera klárt fyrir löndun í blíðunni. Ljósm. Ómar Bogason