Vestmannaey VE kemur til löndunar. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Bergur VE, Vestmannaey VE og Gullver NS hafa allir landað í gær og í dag. Vestmannaey landaði í Vestmannaeyjum í gær og þá landaði einnig Gullver á Seyðisfirði. Bergur landaði hins vegar á Eskifirði í dag. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að aflinn hafi fengist við Eyjarnar. „Við lönduðum fullfermi í gær. Þetta var mest karfi sem við vorum með en einnig dálítið af ýsu og ufsa. Nú var veitt hér við Eyjarnar; í Háadýpinu, á Horninu suður af Stórhöfða og á Sneiðinni. Þarna vorum við í blíðu, í skjóli fyrir norðanáttinni. Skipið heldur til veiða á ný nú í hádeginu,“ segir Birgir Þór.

Steinþór Hálfdanarson, skipstjóri á Gullver, segir að þeir hafi veitt í leiðindatíð. „Það er norðanstrengur austur af landinu sem skapar þessi leiðindi. Aflinn hjá okkur var um 90 tonn, mest þorskur. Við hófum veiðar í Berufjarðarálnum, en vorum mest í Hvalbakshallinu og enduðum síðan í Seyðisfjarðardýpinu. Það verður farið út á ný í hádeginu í dag,“ segir Steinþór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að skipið sé að landa fullfermi á Eskifirði. „Aflinn fékkst á Öræfagrunni og á Ingólfshöfða. Þetta byrjaði rólega hjá okkur í bölvaðri brælu en síðan rættist ágætlega úr þessu. Það verður látið úr höfn í kvöld og haldið til veiða,“ segir Jón.