Landað úr Barða NK sl. laugardag og fiski skipað um borð í flutningaskipið Scombrus. Ljóm. Kristinn Agnar Eiríksson Landað úr Barða NK sl. laugardag og fiski skipað um borð í flutningaskipið Scombrus. Ljóm. Kristinn Agnar EiríkssonTogararnir hafa komið til löndunar hver á fætur öðrum síðustu daga. Frystitogarinn Barði NK landaði í Neskaupstað sl. laugardag. Afli hans var um 360 tonn upp úr sjó og var uppistaðan ufsi, karfi og þorskur. Verðmæti aflans var um 130 milljónir króna. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að farið hafi verið í kringum landið í veiðiferðinni. „Við byrjuðum fyrir austan í grálúðu en veiðin var dræm og við fengum of mikið af þorski. Síðan var siglt vestur í Reykjafjarðarál í ýsuleit en þar var frekar rólegt. Þá var haldið á Halann og helst reynt við ufsa. Þar vorum við megnið af túrnum en flúðum aftur í Reykjafjarðarálinn um tíma vegna veðurs. Það var þokkalegt nudd þarna fyrir vestan en undir lok túrsins héldum við suður fyrir land í djúpkarfa- og gulllaxleit. Síðan toguðum við á nokkrum stöðum á leiðinni austur og lokuðum hringnum þannig,“ sagði Theodór.
 
Ísfisktogarinn Bjartur NK landaði 100 tonnum í Neskaupstað í gær og var þorskur uppistaða aflans. Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær samtals 90 tonnum. Afli hans var blandaður en mest var af þorski og karfa.  Vestmannaey VE landaði 65 tonnum á Eskifirði sl. fimmtudag og sama dag landaði Bergey VE 50 tonnum í Vestmannaeyjum.
 
Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti segir að þokkaleg þorskveiði hafi verið að undanförnu en heldur lélegt hafi verið í öðrum tegundum, þó hafi ýsuafli heldur verið að glæðast . „Í túrnum núna fengum við til dæmis mjög góðan þorskafla síðasta sólarhringinn. Það var mjög mikið af honum á litlum bletti í Seyðisfjarðardýpinu. Við fengum líka dálítinn ufsa í Berufjarðarál. Í síðasta túr fengum við ágætt af ýsu hér við bæjardyrnar. Þetta gengur svona og veðrið setur alloft strik í reikninginn. Það var til dæmis bölvuð bræla í þessum túr,“ sagði Steinþór.