Ísfisktogarinn Bjartur kom til löndunar í Neskaupstað á mánudagsmorgun. Aflinn var 87 tonn og var uppistaðan þorskur. Bjarni Hafsteinsson skipstjóri var ánægður með túrinn þrátt fyrir að veðrið hafi skemmt fyrir. „Það var lítil þorskveiði suðurfrá á okkar hefðbundnu miðum vegna brælu og leiðinda sjólags,“ sagði Bjarni. „Af þeirri ástæðu fiskuðum við á Digranesflakinu. Það má segja að það hafi verið hörkuveiði á Digró“.
Frystitogarinn Barði kom til hafnar í morgun að afloknum góðum túr. Aflinn var 477 tonn upp úr sjó að verðmæti um 150 milljónir króna. Uppistaða aflans er gulllax og þorskur en einnig er dálítið af karfa og ufsa. Reynt var við grálúðu í túrnum með litlum árangri. Barði millilandaði hinn 6. febrúar en túrinn hófst í lok janúarmánaðar. Theodór Haraldsson skipstjóri segist vera afar sáttur við túrinn en hann hafi þó verið veðurfarslega erfiður. „Við fiskuðum mest á austur- og suðausturmiðum og eins vorum við í nokkra daga fyrir norðan land,“ sagði Theodór. „Í sannleika sagt er veðurfarið búið að vera hræðilegt síðustu vikur. Við vorum á sífelldum flótta undan veðri. Það var aldrei blíða í boði, valið stóð á milli þess að vera í 20 eða 30 metrum,“ sagði Theodór að lokum.