Bergey VE landaði fullfermi af ufsa í Vestmannaeyjum í gær. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE landaði fullfermi af ufsa í Vestmannaeyjum í gær.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogararnir hafa verið að fiska ágætlega síðustu daga þrátt fyrir óhagstætt veður. Bergey VE kom til Vestmannaeyja í gær eftir tvo sólarhringa á veiðum með fullfermi og var aflinn mestmegnis ufsi. Heimasíðan hafði samband við Egil Guðna Guðnason skipstjóra á Vestmannaey VE í morgun og spurði tíðinda. „Við erum á landleið með fullan bát og mun túrinn taka tæplega þrjá sólarhringa höfn í höfn. Við erum mest með ufsa sem fékkst vestast á Selvogsbankanum. Fiskiríið hefur verið gott en veðrið hefur verið leiðinlegt. Núna er norðaustan 22. Í svona veðri reynir mikið á skip, búnað og áhöfn. Það er erfitt að vinna við þessar aðstæður, en það tekst,“ segir Egill Guðni.
 
Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í morgun með 85 tonn og var aflinn að mestu þorskur. Veiðiferðin tók rúma þrjá sólarhringa og aflaðist vel.
 
Landað úr Gullver NS á Seyðisfirði í morgun. Ljósm. Ómar BogasonLandað úr Gullver NS á Seyðisfirði í morgun.
Ljósm. Ómar Bogason