Í gær voru liðin 49 ár frá því að snjóflóðin miklu féllu í Neskaupstað og urðu tólf manns að bana. Þessi dagur mun aldrei líða Norðfirðingum úr minni og hefur hans verið minnst með ýmsum hætti. Í gær voru tendruð ljós á tólf kertum á minningareit Síldarvinnslunnar, en minningareiturinn er á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem snjóflóð lagði í rúst 20. desember 1974.
Minningareiturinn var vígður við hátíðlega athöfn þann 25. ágúst í fyrra en ákveðið var að láta gera reitinn á 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar árið 2017. Minningareiturinn er helgaður þeim sem látist hafa í störfum hjá Síldarvinnslunni. Það er sorgleg staðreynd að alls hafa 12 týnt lífi í störfum hjá fyrirtækinu og þar af fórust sjö í snjóflóðunum fyrir 49 árum.