Börkur NK fylgist með loðnunni norður af landinu. Ljósm. Smári Geirsson

Börkur NK er að fylgjast með loðnunni norður af landinu ásamt fleiri skipum. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að áhöfnin hafi það náðugt og skipið sé bara látið reka. „Héðan er fátt að frétta. Við erum hérna í blíðviðri og það er töluvert af loðnu að sjá. Það er hins vegar ekki unnt að veiða hana í nót því hún stendur of djúpt. Loðnan þar sem við erum staddir núna er á 230 metrum. Hér væri örugglega hægt að ná góðum árangri í troll en það hefur ekki enn fengist heimild til slíkra veiða. Við köstuðum einu sinni í fyrrinótt og fengum þá um 10 tonn. Sú loðna var fín og falleg, 43 stykki í kílóinu. Það eru hérna sex bátar að fylgjast með loðnunni en það kastaði einungis einn í nótt með engum árangri. Það var Heimaey. Við bíðum hér og gerum okkur vonir um að það verði gefið trollleyfi. Loðnan hefur haldið sig á svipuðum slóðum síðustu dagana en hefur þó aðeins fært sig sunnar og austar,“ segir Hálfdan