Gullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði aðfaranótt sunnudags að lokinni veiðiferð. Afli skipsins var 105 tonn, blandaður afli en mest var af þorski. Úr skipinu var síðan landað í gær. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að fiskast hafi þokkalega í túrnum en veðrið hafi ekki verið upp á það besta. “Ákveðið var að stytta túrinn því það stefndi í vitlaust veður. Menn ættu vart að þurfa að hafa áhyggjur af brælum á þessum árstíma en svona er þetta bara. Túrinn var fimm sólarhringar og það var veitt á okkar hefðbundnu slóðum; Hvalbakshalli, Berufjarðarálnum og á Lónsbugtinni. Farið verður út á ný eftir hádegi í dag,” segir Þórhallur.