Unnið að uppsetningu „Big Mama“ – frystiskápanna í  fiskiðjuverinu. Ljósm: Hákon ErnusonUnnið að uppsetningu „Big Mama“ – frystiskápanna í fiskiðjuverinu. Ljósm: Hákon ErnusonÞessa dagana eru unnið hörðum höndum við að setja upp tvo stóra frystiskápa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Er tilkoma skápanna liður í því að auka afköst fiskiðjuversins. Hér er um að ræða svonefnda kassafrysta en þeir eru stærri en þeir fjórir kassafrystar sem fyrir eru í verinu. Skáparnir eru hannaðir og smíðaðir hjá Þorgeir & Ellert hf. og Skaganum hf. á Akranesi . Að sögn Ingólfs Árnasonar, framkvæmdastjóra Skagans, hefur uppsetning skápanna gengið vel og hugsanlegt er að hefja notkun þeirra í næstu viku. Segir Ingólfur að þessir skápar séu hinir fyrstu sinnar tegundar og afkastageta þeirra sé mun meiri en eldri skápanna. „Það er ekki vitað til þess að stærri skápar séu til í heiminum, enda köllum við þá „Big Mama“. Okkur þykir vel viðeigandi að fyrstu stóru skáparnir séu settir upp í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en fyrsti skápurinn af minni gerðinni var einmitt settur þar upp árið 2010“, sagði Ingólfur.
 
Nýju skáparnir eru 4,6 m á breidd, 5,4 m á dýpt og 6,1 m á hæð. Hver frystiplata í þeim er 13 fermetrar á meðan hún er 6,5 fermetrar í eldri skápunum. Afkastageta nýju skápanna er 60 tonn á sólarhring á meðan hún er rúmlega 30 tonn í þeim eldri.
 
Kassafrystar hafa ýmsa kosti fram yfir hefðbundna blástursfrysta. Þeir gefa kost á jafnri vinnslu allan sólarhringinn, eru ekki eins orkufrekir og blástursfrystar og orkunotkun þeirra er jafnari. Frystitími í kassafrystunum er styttri og þeir henta mun betur til heilfrystingar á stærri uppsjávarfiski.