Í síðustu viku vörðu þau Stefán Þór Eysteinsson og Hildur Inga Sveinsdóttir doktorsritgerðir sínar í matvælafræði við Háskóla Íslands. Hafa þau bæði unnið að doktorsverkefnunum í samvinnu við Síldarvinnsluna.
 
Stefan Thor EysteinssonStefan Þór EysteinssonVerkefni Stefáns fólst í rannsóknum á rauðátu, en rauðáta er meginfæða uppsjávarfiska í Norður-Atlantshafi. Tilgangurinn með rannsókninni var margþættur. Í fyrsta lagi var skaðsemi rauðátu við vinnslu uppsjávarfiska könnuð og skoðað hvernig best er að meðhöndla afla, stýra vinnslu og geyma afurðir þegar áta er í fiskinum. Í öðru lagi var kannað hvaða áhrif rauðáta hefur á vinnslu á mjöli og lýsi og loks voru eiginleikar átunnar skoðaðir með tilliti til þess hvort megi nýta hana sjálfa með einhverjum hætti.
 
 
 
 
 
 
 
 
Hildur Inga SveinsdóttirHildur Inga SveinsdóttirVerkefni Hildar Ingu fjallaði um virðisaukningu í vinnslu Atlantshafsmakríls og var rannsakað geymsluþol og efna- og vinnslueiginleikar makríls sem veiddur er við Ísland, en hann er mjög fitumikill og erfiður meðhöndlunar. Sérstaklega var kannað hvort unnt sé að roðskera makrílinn án þess að það hafi áhrif á gæði flaka, en með því er hægt að auka geymsluþol. Einnig tók verkefnið á nýtingu roðs og dökks vöðva sem skorinn er frá við roðskurðinn. Þá var kannað hvort unnt væri að nýta myndgreiningartæki við eftirlit og bestun vinnslu roðlausra flaka.
 
Vill Síldarvinnslan færa hinum nýju doktorum innilegar hamingjuóskir um leið og þakkað er fyrir ánægjulegt og farsælt samstarf.