Unnið af krafti í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonUnnið af krafti í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonUm þessar mundir hafa 2.600 tonn af fiski komið til vinnslu hjá fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði það sem af er þessu ári. Á sama tíma í fyrra höfðu 1.310 tonn komið þar til vinnslu. Aflinn sem unninn hefur verið hefur semsagt tvöfaldast á milli ára. Nánast allur afli sem unninn hefur verið í fiskvinnslustöðinni á árinu er ufsi og þorskur. Einungis örlítið af ýsu hefur fengið að fljóta með. 
 
Ómar Bogason hjá fiskvinnslustöð Gullbergs segir að þróunin sé svo sannarlega ánægjuleg. „Þetta er rosaleg breyting. Um langt skeið hefur yfirleitt ekki verið unnin full vinnuvika hjá okkur en nú er framleitt á fullu alla daga. Það er séð til þess að ávallt sé nægilegt hráefni til vinnslu – þetta er eins og í súkkulaðiverksmiðju. Svona þarf þetta að vera og við væntum þess að í framtíðinni verði vinnslan hér vel búin og skili góðri rekstrarniðurstöðu. Starfsfólkið er mjög ánægt með þessa breytingu á starfseminni og það hefur allt staðið sig frábærlega,“ sagði Ómar.
 
Frá því að Síldarvinnslan festi kaup á fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði og togaranum Gullver hefur afli til stöðvarinnar komið frá Gullver, Bjarti og Vestmannaeyjaskipunum Bergey og Vestmannaey.
 
Gullver kom til löndunar á Seyðisfirði í gær og var afli hans 70 tonn, uppistaðan þorskur og karfi.