00„Við fengum aflann á Öræfagrunni og í Hornafjarðardýpinu og það var gott veður allan túrinn að undanskildum einum sólarhring. Aflinn er mestmegnis ufsi og ýsa og það er einkar ánægjulegt að ufsinn láti sjá sig, en það er langt síðan hann hefur fengist á þessum slóðum. Þetta er hinn fallegasti fiskur og ufsinn er góður milliufsi eins og oft er sagt,“ sagði Egill Guðni.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, sagði að túrinn hjá þeim hefði verið í rólegri kantinum. „Aflinn hjá okkur er að mestu þorskur og ýsa, aðeins ufsi með. Það var víða veitt í túrnum. Við byrjuðum á að taka þorsk og ýsu á Víkinni, síðan var haldið á Ingólfshöfðann og þar fékkst þorskur. Þá lá leiðin í Sláturhúsið og á Stokksnesgrunn og þaðan vestur á Öræfagrunn. Við enduðum svo á Víkinni. Þetta var tiltölulega þægilegt og veður var gott fyrir utan einn bræludag,“ sagði Jón.
Bergur mun halda á ný til veiða annað kvöld og Vestmannaey á fimmtudagskvöld.