Gullver NS á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í morgun. Aflinn var 115 tonn, mest ýsa og þorskur. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði fyrst hve langur túrinn hefði verið. „Þetta var langur túr, tæplega vika höfn í höfn. Við gerðum heiðarlega tilraun til að finna ufsa en það var svo sannarlega fátt um fína drætti í þeim efnum. Ufsinn er okkur afar erfiður. Við reyndum einnig að finna karfa með litlum árangri. Við byrjuðum á að fara suður í Hornafjarðardýpi og síðan var reynt á nánast hverri bleiðu norður á Tangaflak. Við tókum aflann að mestu á Gula teppinu og það gekk vel að veiða ýsuna yfir daginn en hún veiðist lítt eða ekki í myrkrinu. Við hófum túrinn í fínu veðri en síðan voru 18-20 metrar þar til í lokin en þá fengum við gott veður á ný,“ segir Hjálmar Ólafur.

Gullver mun halda á ný til veiða á miðvikudag.