Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði í fyrradag. Aflinn var um 90 tonn, mest karfi en einnig bland af þorski, ýsu og ufsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að veitt hafi verið í Berufjarðarálnum og á Papagrunni. „Það er nóg af þorski og ýsu á þessum miðum og einnig er sæmilegt kropp í karfa, en því miður lætur ufsinn lítið á sér kræla. Það er víða leitað að ufsa og yfirleitt með takmörkuðum árangri,“ segir Þórhallur.
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi til veiða á ný síðdegis í dag. Síðan er stefnt að því að landa á miðvikudag en þá verður stoppað yfir verslunarmannahelgina.