Flóttamenn frá hinni stríðshrjáðu Úkraínu hafa verið á loðnuvertíð hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Fimm Úkraínumenn, sem hafa starfað hjá Vísi í Grindavík, komu austur og tóku þátt í vertíðarönnunum og auk þess hafa flóttamenn sem upphaflega komu austur til dvalar á Eiðum fengið að kynnast loðnuvinnslu og störfum tengdum henni. Tíðindamaður heimasíðunnar tók þrjá þessara Úkraínumanna tali og spurði þá um hið hörmulega stríð og hvernig þeim vegnaði á Íslandi. Hér var um að ræða þá Valerii Nicolaev og Oleksiy Vovk frá Mariupol og Ludmila Hrunska frá Kramatorsk.
Valerii Nicolaev starfar í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hann og unnusta hans, Julia, komu til Íslands um mánaðamótin október – nóvember en hafa starfað í Neskaupstað frá því í desemberbyrjun. Julia er rússnesk og það var hún sem fyrst fékk starf í Neskaupstað og Valerii kom þangað í kjölfarið. „Ég er fæddur í Mariupol og hef átt þar heima nánast allt mitt líf. Ég var í tíu ár á flutningaskipum sem voru í þýskri eigu en átti mitt heimili í Mariupol. Mariupol var ein fyrsta borgin sem ráðist var á í stríðinu og það var ömurlegt að dvelja langtímum saman neðanjarðar í kjallara á meðan sprengjurnar féllu. Við ákváðum að flýja borgina eftir að Rússar náðu henni á sitt vald en engu að síður féllu ennþá sprengjur þegar við kvöddum. Við komumst til Sankti Pétursborgar í Rússlandi en Júlía er einmitt þaðan. Við Júlía erum fullkomlega sammála um allt sem stríðinu viðkemur. Þetta stríð er ömurlegt fyrir margra hluta sakir. Meðal annars gerist það að feðgar, bræður eða nánir vinir eru í sitt hvorum hernum. Við ákváðum að forða okkur og koma okkur langt frá þessum drápum og hryllingi. Það var hins vegar ekki auðvelt að komast burt. Við flugum frá Sankti Pétursborg til Moskvu, þaðan til Tyrklands og frá Tyrklandi til Noregs. Í Noregi lentum við í vanda vegna þess að Júlía er rússnesk, en það bjargaðist. Við ákváðum síðan að fara til Íslands því okkur finnst vera hætta á að brjótist út víðtækari styrjöld í Evrópu og þá er Ísland allavega í dálítilli fjarlægð. Þegar til Íslands var komið hófum við að kynna okkur landið og atvinnumöguleika. Þá fékk Júlía vinnu hjá GG-þjónustu í Neskaupstað og hennar starf var að sjá um eldhúsið í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Ég var síðan í hópnum sem fór til Eiða og dvaldi þar í tvær eða þrjár vikur á meðan ég athugaði með störf. Það var í forgangi að fá starf í Neskaupstað og það tókst. Ég fékk starf í fiskimjölsverksmiðjunni og mér líkar það afar vel. Þá vorum við svo heppin að fá íbúð í bænum þannig að það fer mjög vel um okkur. Það hefur allstaðar verið tekið vel á móti okkur og við viljum helst vera áfram í Neskaupstað. Fyrir fáeinum dögum kom móðir mín einnig til Íslands og við munum að sjálfsögðu aðstoða hana eins og við getum. Auðvitað hefur þetta stríð áhrif á alla Úkraínumenn. Þeir eru áhyggjufullir, óttaslegnir og reiðir. Þetta er stríð sem mun aldrei gleymast og í því hefur margt gerst sem aldrei verður fyrirgefið,“ segir Valerii.
Ludmila Hrunska kom til Íslands fyrir tveimur mánuðum. Hún fékk fljótlega starf hjá GG- þjónustu og kom þess vegna austur til Neskaupstaðar. „Starfið mitt felst í því að sjá um eldhúsið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og það er starf sem ég hef ánægju af. Það er gott að vera komin til Íslands og allir hér á landi hafa tekið vel á móti mér. Mér líkar vel við landið, fólkið og starfið mitt og ég kvarta ekki. Ég kem frá borginni Kramatorsk í Donetsk-fylki en þar hafa verið mikil átök allt stríðið. Kramatorsk er einungis í 20 kílómetra fjarlægð frá borginni Bakhmút sem grimmilega hefur verið barist um að undanförnu. Bakhmút er sú borg sem mest hefur verið í stríðsfréttunum upp á síðkastið. Ég hef miklar áhyggjur af stöðunni í Úkraínu og hugsa mikið til fólksins þar. Það er einlæg ósk mín að stríðinu ljúki sem fyrst,“ segir Ludmila.
Oleksiy Vovk er frá Mariupol rétt eins og Valeriii Nicolaev. Hann kom til Íslands ásamt eiginkonu og syni í maí á síðasta ári. Þau dvöldu fyrst í Reykjanesbæ en að því kom að þau hjónin slitu samvistum. Hann var á meðal þeirra Úkraínumanna sem komu austur til Eiða en konan og sonurinn eru nú í Borgarnesi. Oleksyi segir að það hafi verið dapurlegt að sjá heimaborgina sprengda í tætlur og falla í hendur rússneska hersins. „Nú má segja að Mariupol sé rústir einar. Talið er að 85% borgarinnar sé í rúst. Fyrst eftir að átökin byrjuðu hjálpaði ég fólki að flýja borgina og vann einnig við að útvega íbúunum mat og lyf. Þetta var skelfileg lífsreynsla. Það er erfitt að horfa upp á eyðilegginguna og sjá fólk á öllum aldri týna lífi. Ég ætla engum svo illt að þurfa að upplifa annað eins. Fyrir átökin vorum við fjölskyldan vel sett. Við áttum íbúð, sumarhús og allt sem þörf var á. Nú eigum við ekki neitt, þetta er allt eyðilagt og horfið. Að því kom að ég flúði frá Mariupol til Litháen og hitti síðar konuna og soninn í Póllandi. Þaðan lá leið okkar til Íslands. Við dvöldum fyrst í Reykjanesbæ en þaðan fór ég til Eiða. Ég var svo heppinn að fá starf í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hér í Neskaupstað og hef unnið hérna á loðnuvertíðinni frá því í byrjun mars. Ég er mjög ánægður í þessu starfi enda var tekið mjög vel á móti mér. Mér líkar vel að búa við sjó og starfa við eitthvað sem tengist sjónum. Ég var á flutningaskipum í heil átján ár og síðan starfsmaður hafnarinnar í Mariupol. Hér á Íslandi finnst mér ég vera öruggur og það er góð tilfinning. Síðan líður mér afar vel í Neskaupstað og vil gjarnan búa hér áfram. Auðvitað hef ég miklar áhyggjur af fólkinu í Úkraínu og því sem þar er að gerast. Það er grátlegt að fylgjast með fréttum af stríðsátökunum,“ segir Oleksiy.