Á myndinni er Beitir NK í ólgusjó. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Kolmunnaskip Síldarvinnslunnur eru öll komin til löndunar. Veður á miðunum er afar slæmt og veiði hafði dregist saman síðustu dagana. Reyndar fékk Beitir NK 320 tonna hol áður en haldið var til hafnar og var það meira en hin skipin fengu. Barði NK landaði rúmlega 800 tonnum í Neskaupstað í gærkvöldi og Beitir er að landa þar tæplega 900 tonnum í dag. Þá er Börkur NK að landa tæplega 1.800 tonnum á Seyðisfirði.

Að þessum löndunum loknum verða fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði búnar að taka á móti um 20.000 tonnum af kolmunna það sem af er árinu. Til Neskaupstaðar hafa borist um 9.700 tonn og til Seyðisfjarðar um 9.800 tonn. Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðjanna, segir að kolmunnaveiðarnar hafi gengið vel en nú megi gera ráð fyrir að fari að draga úr veiðunum. „Hráefnið sem skipin hafa fært okkur hefur verið afar gott og þar af leiðandi eru afurðirnar í háum gæðaflokki,“ segir Hafþór. Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði tekur undir með Hafþóri hvað gæði hráefnis og afurða varðar. „Verksmiðjan hér hefur rúllað afskaplega vel. Við gerum ráð fyrir að þessari lotu kolmunnaveiðanna fari að ljúka en síðasta löndunin úr sambærilegri lotu í fyrra hjá okkur var 29. janúar,“ segir Eggert.