Nýr Bjarni Ólafsson AK kemur að landi með fullfermi af kolmunna að morgni uppstigningardags. Ljósm. Smári Geirsson Nýr Bjarni Ólafsson AK kemur að landi með fullfermi af kolmunna að morgni uppstigningardags. Ljósm. Smári GeirssonFiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa tekið á móti um 79 þúsund tonnum af kolmunna það sem af er vertíðinni. Alls hafa 45 þúsund tonn komið að landi í Neskaupstað og 34 þúsund tonn á Seyðisfirði.
 
Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að á Seyðisfirði hafi verið lokið við að vinna fyrirliggjandi hráefni í nótt. Segir hann að útlit sé fyrir ágætt ár hjá fiskimjölsverksmiðjunni á Seyðisfirði en hún hefur tekið á móti 70 þúsund tonnum af hráefni það sem af er ári, þar af 36 þúsund tonnum af loðnu.
 
Guðjón B. Magnússon, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, upplýsir  að verksmiðjan þar hafi tekið á móti 103.500 tonnum af hráefni það sem af er árinu og þar vegi loðnan þyngst. Verksmiðjan í Neskaupstað er að ljúka við vinnslu á þeim kolmunna sem borist hefur til hennar þannig að eitthvað vinnsluhlé er framundan.
 
Dofnað hefur yfir kolmunnaveiðunum í færeysku lögsögunni nú síðustu dagana og eru skipin að leita mun norðar en áður. Fyrir liggur að Bjarni Ólafsson AK mun landa 1050 tonnum á Seyðisfirði í fyrramálið en önnur skip munu fljótlega hefja siglingu til heimahafnar svo þau verði komin tímanlega fyrir sjómannadagshelgina.