Umhverfishópurinn ásamt flokkstjórum, verkstjóra og yfirumsjónarmanni.Umhverfishópur Síldarvinnslunnar hóf störf í byrjun júnímánaðar. Í hópnum eru 13 ungmenni að flokksstjórum meðtöldum.  Verkstjóri er Ingi Steinn Freysteinsson en Sigfús Sigfússon stýrir umhverfisverkefnunum.

Að sögn Sigfúsar eru verkefni hópsins mikil og margvísleg. Hann sinnir tiltekt af öllu tagi á athafnasvæði Síldarvinnslunnar og að auki fæst hann við hreinsun og málningarvinnu. Sigfús lætur vel af hópnum og segir að hann sé áhugasamur og kraftmikill og góður vinnuandi ríki innan hans. Þá fullyrðir hann að árangur af starfinu verði augljós og reyndar sé slíkur árangur þegar kominn fram. Síldarvinnslan ætli sér að leggja aukna áherslu á umhverfismál og ráðning umhverfishópsins sé liður í því. Að mati Sigfúsar mun hópurinn skila góðu og þörfu verki sem allir ættu að verða ánægðir með.