Umhverfishopur

Hluti umhverfishóps Síldarvinnslunnar í vettvangsheimsókn við munna Norðfjarðarganga í Fannardal

Umhverfishópur Síldarvinnslunnar lauk störfum nýverið og hefur skilað góðu verki. Hópurinn hóf að sinna verkefnum sínum um mánaðamótin maí-júní og hefur unnið kappsamlega í sumar. Í fyrstu voru 10 ungmenni í hópnum en þegar hópurinn var fjölmennastur taldi hann 15 ungmenni af báðum kynjum. Sigfús Sigfússon stýrði starfsemi hópsins eins og hann hefur reyndar gert síðustu sumur.

Að sögn Sigfúsar eru ávallt næg verkefni fyrir umhverfishópinn. Hann sinnti tiltekt á athafnasvæði Síldarvinnslunnar auk þess sem hann fékkst við hreinsun og snyrtingu af öllu tagi. Það var rakað, sópað, blettað, málað, slegið og unnið í lóðum svo eitthvað sé nefnt. Að sögn Sigfúsar voru ungmennin í hópnum einstaklega dugleg, áhugasöm og sinntu öllum verkum af metnaði. „Það ríkti góður andi innan hópsins og samviskusemi einkenndi hann. Krakkarnir voru jákvæðir og vinnusamir og allt gekk eins og í sögu,“ segir Sigfús.

Árangurinn af störfum umhverfishópsins er mjög sýnilegur og er vitnisburður um þá auknu áherslu sem Síldarvinnslan leggur á umhverfismál. „Staða umhverfismála á athafnasvæði fyrirtækisins hefur aldrei verið betri, en auðvitað má alltaf finna ný verkefni sem þyrfti að sinna,“ segir Sigfús.