Hluti af því sem kom upp með trolli Blængs NK í Barentshafinu. Ljósm. Smári Geirsson
Alllengi hafa íslenskir togarar fært allt að landi sem komið hefur í veiðarfærin. Um ýmiskonar rusl er að ræða, allt frá veiðarfæraleifum til hluta úr sokknum skipum. Þegar í land er komið er öllu síðan fargað eftir þeim reglum sem gilda. Það er löngu liðin tíð að öllu sé dembt í hafið í anda gamla máltækisins „lengi tekur sjórinn við“.
Frystitogarinn Blængur kom úr Barentshafinu sl. föstudag eftir góðan túr. Athygli vakti að eftir að skipið lagðist að bryggju í Neskaupstað var mikið af allskonar drasli híft í land og brátt mynduðust tveir stórir haugar sem mörgum var starsýnt á. Í haugunum mátti sjá alls konar trollafganga, spotta, krabbagildrur og málmhluti af ýmsu tagi. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvernig þetta drasl væri tilkomið. „Þetta er allt rusl úr Barentshafinu sem kom upp með trollinu. Það virðist vera óhemju drasl þarna á hafsbotni og miklu meira en hér við land. Við tökum allt sem upp kemur, leggjum það til hliðar og komum með það í land þar sem því er fargað. Það er langt síðan hætt var að demba öllu í sjóinn af íslenskum skipum og með aukinni umhverfisvitund byrjuðu menn að flytja allt í land sem upp kom í veiðarfærunum. Íslenskum sjómönnum er annt um hafið eins og eðlilegt er,“ segir Theodór.
Tekið skal fram að Ísland á aðild að svonefndum MARPOL-samningi sem er alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum, þar með talinni sorpmengun, olíumengun og loftmengun. Samningurinn er upphaflega frá árinu 1973 en á seinni tímum hafa ýmsir viðaukar og séríslensk ákvæði tekið gildi. Um þessar mundir er hafin flokkun á öllu sorpi og úrgangsefnum um borð í íslenskum skipum og fer förgun síðan fram í landi.