Um þessar mundir er víða unnið að undirbúningi makrílvertíðar og að sjálfsögðu taka starfsmenn Síldarvinnslunnar fullan þátt í því. Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segir að unnið sé að því að gera uppsjávarskip fyrirtækisins klár fyrir vertíðina. „Það eru engin stór verkefni í skipunum en verið er að sinna ýmsu smávægilegu. Það er unnið í Berki og Barða í heimahöfn í Neskaupstað en Beitir er hins vegar í reglubundnum slipp á Akureyri. Skipin verða tilbúin að halda til makrílveiða um eða uppúr 20. júní,“ segir Grétar.
Þá var rætt við Ívar Dan Arnarsson, tæknistjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar, og hann spurður hvernig undirbúningur makrílvertíðar gengi í fiskiðjuverinu. „Hér er verið að vinna að allstórum verkefnum og einnig smærri. Helstu verkefnin eru uppsetning límingavéla fyrir umbúðir og einnig uppsetning dreifikerfis, sem dreifir umbúðum á pökkunarstöðvar. Þessi breyting stuðlar að því að minnka kostnað við flutning á umbúðum og eykur einnig hagræðingu við pökkunarvinnuna. Einnig er verið að skipta út þremur hálfsjálfvirkum flökunarvélum og setja alsjálfvirkar upp í staðinn. Þá eru allar flökunarvélarnar í fiskiðjuverinu, tíu talsins, orðnar alsjálfvirkar. Við í fiskiðjuverinu verðum klár í að taka á móti makríl í lok mánaðarins og menn telja að vertíðin geti orðið góð,“ segir Ívar.
Heimasíðan ræddi einnig við Einar Birgi Kristjánsson, framkvæmdastjóra Tandrabergs, en Tandraberg rekur brettaverksmiðju í Neskaupstað og það er annatími framundan hjá starfsmönnum hennar þegar makrílvertíðin hefst. „Við gerum ráð fyrir að smíða um 100.000 bretti á komandi makrílvertíð. Það kom efni í brettin með skipi til Neskaupstaðar í byrjun vikunnar og lokið var við að skipa efninu á land í morgun. Í verksmiðjunni vinna sex til sjö menn og geta þeir framleitt 1.500 bretti á dag. Ég gæti trúað því að við séum að framleiða um 50% af þeim brettum sem framleidd eru hér á landi. Við framleiðum fyrir stóru sjávarútvegsfyrirtækin hér í Fjarðabyggð, Síldarvinnsluna, Eskju og Loðnuvinnsluna, og auk þess framleiðum við fyrir Búlandstind á Djúpavogi, álver Alcoa og kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Makrílvertíðin er að sjálfsögðu annatími hjá okkur og ég held að menn séu bjartsýnir fyrir þessa vertíð,“ segir Einar Birgir.