Ungir háskólanemar á skrifstofu Síldarvinnslunnar. Talið frá vinstri: Ásgeir Heimisson, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir, Sigurður Steinn Einarsson og Elvar Ingi Þorsteinsson. Ljósm. Hákon Viðarsson.Það er óvenju fjölmennt á skriftstofum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um þessar mundir. Ástæðan er sú að fjórir ungir háskólanemar vinna þar að athyglisverðum verkefnum sem tengjast sjávarútvegi og fylgir þeim eðlilega líf og fjör. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir námsmönnunum og verkefnum þeirra:

Elvar Ingi Þorsteinsson er að vinna lokaverkefni við Viðskiptaháskólann í Árósum. Verkefnið fjallar um möguleika þurrkaðs kolmunna á kínverskum mörkuðum. Markaðssvæði í Kína eru könnuð og farið yfir markaðsaðstæður á hverju svæði. Hafa verður í huga í þessu sambandi að efnahagur fólks batnar hratt á ýmsum svæðum í Kína og þar er mikil eftirspurn eftir þurrkuðum fiski. Elvar kom heim til Neskaupstaðar í janúar og hefur síðan unnið að lokaverkefninu ásamt því að kanna möguleika á síldarmörkuðum í Austur-Evrópu fyrir Síldarvinnsluna.

Sigurður Steinn Einarsson og Sylvía Kolbrá Hákonardóttir vinna að verkefni sem felur í könnun á því hvernig best verður staðið að þurrkun á kolmunna. Sigurður Steinn er að ljúka námi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri og Sylvía Kolbrá stundar slíkt nám við sama skóla. Um þessar mundir er verið að þýða upp sjófrystan kolmunna og gera þau tilraunir með flökun á honum og síðan þurrkun.  Verkefnið er styrkt af Rannís og samstarfsmaður þeirra tveggja er Snorri Halldórsson sem stundar meistaranám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann í Tromsö í Noregi. Auk þessa verkefnis eru þau Sigurður Steinn og Sylvía Kolbrá að vinna að undirbúningi sjávarútvegsnáms fyrir grunnskólanema sem byggt yrði á reynslunni sem fékkst af Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar á síðasta ári.

Ásgeir Heimisson er nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og vinnur að verkefni sem felur í sér könnun á umsvifum sjávarútvegsins á Austfjörðum og samfélagslegum áhrifum hans. Á síðasta ári vann Ásgeir sambærilegt verkefni fyrir Faxaflóahafnir og vöktu niðurstöður þess verulega athygli. Verkefni Ásgeirs er kostað af Útvegsmannafélagi Austfjarða og Fjarðabyggðarhöfnum og unnið í samstarfi við Austurbrú.